ER GÓÐ HÖNNUN LÚXUS?

 

Er góð hönnun lúxus?

 

Hvað er það sem virkilega nær til þín, hefur áhrif á þig, þegar þú hugsar um umhverfi þitt út frá hugtakinu hönnun? Spáir þú einhvern tímann í hugtakið hönnun? Allir tilbúnir hlutir í kringum okkur eru hannaðir. Upphaflega búnir til út frá þörfum og vilja mannsins. Allir hlutir hafa einhvern tilgang. Borð, stóll, umferðarljós, sprauta, jarðýta, pensill. Einhvern veginn hófst þetta, hugmyndin um hlutinn, út frá ákveðinni þörf.

Hönnun í nútímanum snýst að langstærstum hluta ekki um það að finna upp hjólið, heldur að þróa, breyta og aðlaga þá hönnun sem fyrir er að nútímakröfum. Og alls staðar þarf að gera ráð fyrir fólki og þörfum þess í þessum kröfum. Ef fólk getur ekki nýtt sér hönnunina og lagað sig að henni, þá hefur hönnuðinum mistekist.

Við eyðum víst 87% tíma okkar innanhúss. Inni í byggingum. Innanhússhönnun hlýtur því að skipta okkur gríðarlegu máli. Af hverju, spyrja kannski einhverjir. Jú, því hvernig hlutirnir eru hannaðir hefur áhrif á það hvernig okkur líður.

Innanhússhönnun, að hanna það sem er innanhúss, snýst um samtal til að komast að því hvað fólk þarf samkvæmt því hvernig það lifir. Hér ætti að huga að orðinu þörf í víðtæku samhengi, því þörfin er ekki bara það að afgreiða hlutina með líkamlegri hegðun, heldur snýst þörfin líka um andlega hegðun og líðan. Hvernig okkur líður heima. Í vinnunni. Í ólíku umhverfi sem við þurfum að sækja heim. Fyrst skal samtalið fara fram, síðan skal byrja að skapa, hanna, út frá því.

Hönnun, og sér í lagi innanhússhönnun, snýst ekki eingöngu um hið sjónræna. Að allt líti vel út. Hún á að vera úthugsað ferli sem hefur mannlega reynslu í fyrirrúmi. Sýnir hluttekningu. Hefur fólk í forgrunni. Hugar að smáatriðunum. Upplifuninni. Það er vönduð og góð hönnun og hún er lúxus! Já, því hún uppfærir það venjulega og gerir það óvenjulegt. Lúxusinn snýst alls ekki um peninga og eitthvað dýrt heldur að manneskjan og þarfir hennar séu metnar að verðleikum. Það hvernig okkur líður 87% af tíma okkar hlýtur að skipta máli. Þegar okkur líður betur þá erum við hamingjusamari og hverju skilar það öðru en betra samfélagi þegar á heildina er litið. – Lesið fleiri greinar á síðunni minni www.homeanddelicious.is

 

*Margir gætu velt því fyrir sér að heimilið sem fylgir greininni hafi ekkert með hönnun að gera og það ég tala um í greininn. En þvert á móti. Allt umhverfi okkar er hannað og búið til og þetta ótrúlega fallega og sjarmerandi heimili ekki síður. Það hefur yfir sér sterka heildarmynd og úthugsaða sem tjáir persónuleika og stíl þeirra sem þar búa. Þarna líður heimilisfólki vel innan dyra. Smellið HÉR til að komast inn á upprunalega slóð þar sem má sjá fleiri myndir og allt um þær.

 

grand-sejour-avec-bibliotheque-et-fauteuils-cosy_5513237


DÝRT HEIMILI!

Hvernig getur þú látið heimilið þitt líta dýrt út?

Þessi spurning sló mig nýlega þegar ég var að fara í gegnum tölvupóst sem ég fæ, sem sýnir nýjar greinar inni á hinum ýmsu síðum sem ég rúlla stundum í gegnum. Af hverju ætti ég að vilja láta heimilið mitt líta dýrt út eða dýrar út en það gerir í raun? Mér finnst þetta ótrúlegar vangaveltur sem snúast um það að láta heimilið vera annað er það er. Fallegt heimili hefur nefnilega ekkert að gera með fjárhag. Hlýlegt og innilegt ekki heldur.

Heimilið á að segja sögu okkar og alls staðar þar sem reynt er of mikið til að allt líti sem dýrast út, það er ekki heimili sem er að virka eins og það á að gera. Þar er verið að skapa ímynd sem er ekki raunveruleiki heldur draumur um eitthvað annað líf. Þar sem sótt er í það sem á að vera „æðislegra” en það sem er.

Grunnhugmyndin um heimilið er hefðbundin. Það eru ákveðnir hlutir sem heimilið sinnir – sem er daglegt líf, og svo miklu meira. Það ætti því frekar að vera áhugavert og spennandi að vinna í því að uppfæra þetta hefðbundna, þ.e. uppfæra umhverfið sem sinnir hefðbundna hlutverkinu sem fylgir daglegu lífi! Þannig að þetta umhverfi sé stöðugt í stakk búið að þróast, taka á sig breytingar og mótast eftir þörfum þeirra sem þar búa. Þannig skapast persónuleg og afslöppuð umgjörð utan um okkur, alls óháð fjárhag, sem segir sögu heimilisfólksins og er sannarlega dýrmætust.

Fylgið mér á síðunni minni www.homeanddelicious.is og lesið þar tengt efni. 

 

 


FRUMLEIKI

Getur það verið, að á þessum stafrænu tímum sem við lifum, þá sé frumleiki á undanhaldi? Að það verði stöðugt sjaldgæfara að vita af og finna einstaklinga sem eru sannir og heiðarlegir í sínum stíl, í því sem þeir eru, gera og búa til. Skapa í kringum sig. Þetta eru vangaveltur sem verða æ meira áberandi. Mér finnst þetta mjög áhugaverð hugsun, á þeim forsendum að þetta stafræna líf mati okkur endalaust á hugmyndum og upplýsingum. Í raun er þetta yfirþyrmandi mikið, flóð af efni sem við skoðum myndrænt, en í flestum tilfellum án þess að vera sérstaklega að fara djúpt í það eða sækja okkur upplýsingar. Týnist sköpunargáfan við allt þetta ofurflæði myndefnis? Við verðum meira skapandi einstaklingar við það að fara djúpt í hlutina sem við þurfum á að halda á okkar sviði, læra í gegnum tíðina, gera mikilvæg mistök, þróa okkur, allt til að ná dýpri þekkingu. 

Frumleiki og það að standa virkilega fyrir það sem maður er, gefur okkur sanna rödd. Heimurinn er í raun að verða frekar einsleitur í allri sinni fjölbreytni, að því leiti að maður sér sömu verslanirnar á endalaust mörgum stöðum út um allan heim, allir þurfa að fylgja öllum á samfélagsmiðlum og svo framvegis, sem skilar sér allt í því að sömu hugmyndirnar og sömu myndirnar fara út um allt. Frumleikinn tapast, sífellt færri fylgja sínu eigin hjarta og gera umhverfið þar af leiðandi skemmtilegra og áhugaverðara. Að fylgja eigin sannfæringu, hlusta á sína innri rödd, vera ástríðufullur, heill og sannur í því sem maður hefur tileinkað sér, hvort sem það er vinna, áhugamál eða annað, í stað þess að leita að samþykki annarra – það er að elska það sem maður gerir.

Mér finnst þetta sérstaklega áhugaverðar vangaveltur á forsendum þess þegar kemur að heimilinu og okkar nánasta umhverfi. Ég hef talað mikið um persónulegt umhverfi sem lýsir þér og þínum. Allt það sem að ofan er sagt má heimfæra á það að skapa sér sinn einstaka heim. En þessi orð þarf að lesa rétt. Innblástur þeirra sem eru frumlegir kemur alls staðar að. Að sjálfsögðu líka í gegnum samfélagsmiðla, endalaust myndefni, áhugavert fólk. Maður þarf bara að vera meðvitaður um að nota allt þetta ógrynni af efni á sinn hátt og vinna úr því. Finna frumlega hlutann í sjálfum sér, til að skapa sér sinn eigin frumlega heim, fyrir sitt eigið frumlega líf án þess að nokkuð annað skipti þar máli. 

02_LIVING_Dimore_S1_0161-1400x934


Um bloggið

Home and Delicious

Höfundur

Halla Bára Gestsdóttir
Halla Bára Gestsdóttir
Halla Bára Gestsdóttir er innanhússhönnuður og eigandi Home and Delicious ásamt eiginmanni sínum, Gunnari Sverrissyni ljósmyndara. Vefsíðan homeanddelicious.is er staður fyrir hugmyndir þeirra og vinnu. Þar má finna ráðleggingar og hugmyndir til að blása lesendum í brjóst kraft í átt að skapandi hugsun, til að byggja í kringum sig persónulegt og einstakt umhverfi. www.homeanddelicious.is
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • grand-sejour-avec-bibliotheque-et-fauteuils-cosy 5513237
  • 02 LIVING Dimore S1 0161-1400x934
  • 02 LIVING Dimore S1 0161-1400x934

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband